Þakklæti
Endurprentun af Sólgosi er á leið í búðir
Efni þessa pistils er í stuttu máli:
Ég er svo þakklát fyrir dýrmætt samstarfsfólk
Sólgos er víða uppseld, en ný útgáfa er væntanleg í verslanir fyrir helgi
Þið getið hitt mig í Pennanum Smáralind kl. 19-21 í kvöld að árita og í Pennanum Kringlunni á mánudaginn kl. 15-16!
Fyrir mörgum árum las ég viðtal við Guðrúnu Evu Mínervudóttur þar sem hún hélt því fram að eiginlega allar bækur væru samstarfsverkefni. Þetta var áður en ég byrjaði að skrifa sjálf af alvöru og ég man að ég fyrtist aðeins við - rosalega væri þetta spes kona að vera að þvæla svona mörgum inn í sköpunarferlið sitt? Væri ekki eðlilegra að vinna sína vinnu sjálfur?
Eftir því sem ég vinn lengur við ritsmíðar verður mér betur ljóst hvað þetta er satt hjá henni. Það er alveg hægt að skrifa bók einn og án aðkomu annarra - en það kann ekki góðri lukku að stýra.
Það þarf að lesa prófarkir og finna allar villurnar - bæði asnalegu stafsetningarvillurnar (allskonar eða alls konar?) og villurnar sem verða þegar tvær setningar hafa verið sameinaðar, en fyrri hluti og seinni hluti eru óvart ekki í samræmi. Það þarf að hanna kápu og brjóta bókina um - viðmót bókarinnar gagnvart lesandanum er stórmál. Það þarf að búa til auglýsingar, það þarf að sjá um prentun, það þarf að dreifa bókinni í verslanir.
En oftast er samt bara eitt nafn á kápunni. Stundum tvö, stundum þrjú - en aldrei endurspeglar það hinn vaska hóp sem stendur að baki verkinu.
Nánasti samstarfsmaðurinn er auðvitað ritstjórinn. Ég hef verið mjög lánsöm með ritstjóra í gegnum tíðina - Sigþrúður Gunnarsdóttir var minn fyrsti og hélt utan um mig þangað til hún varð framkvæmdastjóri Forlagsins fyrir fáum árum. Þá var mín kæra vinkona Guðrún Lára Pétursdóttir byrjuð að vinna á Forlaginu og ég bað um að fá að færast til hennar.
Báðar þessar konur eru leiftrandi snjallar, lausnamiðaðar og útsjónarsamar. Þær koma stöðugt í veg fyrir að ég verði mér til skammar, þær grípa þokukennda hugsun, ósamræmi og kauðslegt orðfæri.
Guðrún mín ritstýrði þremur bókum af þeim fimmtán sem voru tilnefndar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna fyrr í mánuðinum. Hún átti tvær bækur af þeim níu sem voru tilnefndar til Fjöruverðlaunanna. Það er hærra hlutfall en megi útskýra af tilviljun.
En það eru samt margar tilviljanir í lífinu og bókmenntunum og margar þeirra hafa fallið mér í hag. Mitt lán hefur verið að fá að vinna með svo mörgu góðu fólki að bókaskrifum og mér finnst oft leitt hvað þessir ósýnilegu meðhöfundar fá lítið hrós.

Jólabókaflóðið er alveg að klárast og ég er full þakklætis. Þetta hefur verið gott flóð - og þá meina ég ekki bara hvað mig varðar, heldur almennt. Það er stemmning fyrir bókmenntum í samfélaginu, og það er skemmtilegt.
Takk, kæru grunnskólar fyrir að taka svona vel á móti mér og kæru unglingar fyrir að hlusta, spyrja og pæla!
Takk bóksalar fyrir að koma Sólgosi til lesenda.
Takk lesendur, fyrir að tengja við hugmyndina og hana Unni mína.
Takk, kæru höfundar, sem sendið allar bækurnar út í veröldina á hverju ári, svo við megum öll njóta. Mikið er gaman að vera lesandi á þessum árstíma!
Og takk, allir ósýnilegu bakhjarlar bókarinnar - allt góða teymið hjá Forlaginu, vinir mínir sem lásu yfir fyrir mig og gáfu góð ráð, eiginmaðurinn sem var ómetanleg kjölfesta í lífi hins ringlaða höfundar og allir hinir.
Sólgos er sem sagt uppseld af lager Forlagsins og talsvert farið að fækka eintökunum í verslunum - en í dag kom til landsins ný kiljuútgáfa sem verður dreift fyrir helgina!
Það eru enn tvö tækifæri til að hitta mig í flóðinu. Við Ævar Þór Benediktsson verðum saman að árita í Pennanum Smáralind kl. 19-21 í dag og kl. 15-16 í Pennanum Kringlunni á mánudaginn 22. desember.



