Gjörðu svo vel fyrir mig, dýrmæti Sir! að touchera þetta ritkorn, hvert eg fávíslega samið hefi
Ég veit fátt betra en sendibréf. Þegar það dettur bréf inn í pósthólfið mitt frá kærum pennavini er deginum borgið.
Ég hef verið efins um að efna póstlista. Það er eitthvað svo nöturlegt að ætla að gerast einnar konu ruslpóstsveita. Samt hef ég verið að hugsa þetta í svolítinn tíma.
Blogg hefur líka komið til greina, því oft liggur mér meira á hjarta en passar inn í hefðbundna samfélagsmiðla - en þá verð ég hrædd við að bloggið mitt yrði eyðilegur staður, alltaf naumlega yfirgefinn, því orðin koma mér svo treglega. Sum skáld geta pundað út ótrúlegu magni af læsilegum texta - ég á fullt í fangi með að skrifa bækur, allt umfram það er svona frekar tæpt að hafist. Er vanrækt blogg ekki verra en ekkert blogg?
En inn í þetta spilast líka löngun til þess að losna undan ægivaldi þessara stærstu samfélagsmiðla, að geta átt samskipti við fólk án milligöngu þeirra.
Og þá man ég eftir því að mér finnst gaman að fá sendibréf. Og mörg þeirra koma frá rithöfundum sem ég fylgi. Svo ég ætla að gefa þessu sjens - að skrifa ykkur bréf sem ég birti jafnframt hérna sem bloggpósta.
Komið þið hjartanlega heil og sæl.
Ég skal reyna að skrifa ekki of oft. Út af fyrrnefndum áhyggjum um að verða ekki minn prívat ruslpóstur. Þó ekki svo sjaldan að allt heila klabbið virðist yfirgefið ef fólk álpast inn. Akkúrat hæfilegt magn af prédikunum. Við sjáum hvernig þetta gengur.