Þegar ég hóf störf sem sumarbarn hjá Morgunblaðinu vorið 2007 vorum við nýliðarnir sett á stutt kynningarnámskeið. Það hófst á því að Einar Falur kenndi okkur grunnatriði í ljósmyndun á klukkutíma - ef svo illa vildi til að við værum ein á mikilvægum vettvangi og þyrftum að smella af símamynd frekar en að vera myndefnislaus. Ólafur Stephensen aðstoðarritstjóri talaði svo um fréttamat. Þennan dag, 30. maí 2007, var stór frétt á forsíðu Moggans um ungan ökumann sem hafði fengið gæs í gegnum framrúðu bílsins síns. Fréttin var í léttum dúr - blessunarlega höfðu ekki orðið slys á fólki.

Ólafur ræddi hvernig lengi voru eingöngu erlendar fréttir á forsíðunni. Þá var hugmyndin sú að ekkert sem gerðist á Íslandi gæti haft sambærilegt vægi og stórtíðindi af erlendum vettvangi.
En þessi regla var löngu fallin úr gildi þarna 2007. Ólafur útskýrði að það væri mannlegt eðli að tengja mest tilfinningalega við það sem stæði manni næst. Þannig endar heimurinn ef maki manns fær krabbamein, það er skelfilegt ef frændi manns fær krabbamein, maður kemst í uppnám ef gömul skólasystir fær krabbamein en það er erfiðara að tengja tilfinningalega við það ef manni er sagt að 66 ára gamall bókasafnsfræðingur í Lillehammer hafi verið að greinast með krabbamein. Við skiljum að það er hið versta mál fyrir bókasafnsfræðinginn og höfum samúð - en enginn hefur tilfinningalega bandvídd til þess að engjast yfir hverri og einni slæmri sjúkdómsgreiningu sem milljónir manna fá á hverjum degi. Það er ekki hægt. (Dæmið um krabbameinið er mitt - ég man ekki nákvæmlega dæmi Ólafs, en það var í svipuðum dúr).
Þetta mætti svo yfirfæra á fréttamat. Fólk tengir við það sem stendur því nærri. Endurskipulagning á grunnskóla í hverfinu mínu kemur mér við, miklu síður endurskipulagning grunnskóla í öðrum landshluta. Og svo framvegis.
Ég hef oft hugsað um þetta. Það er einhver mennska í því að gangast við því að svona er málum farið. Ólafur stóð 100% með gæsinni á forsíðunni - það var flott mynd sem fylgdi og viðmælandinn var skemmtilegur. Allir lesendur gátu sett sig í þessi spor. Gæsin á forsíðunni var örugglega mikið lesin frétt þennan dag.
Gott og vel.
Það er samt svo erfitt að finna eitthvert jafnvægi í þessu. Hvað er raunverulega fréttnæmt? Við getum ekki bara öll velt okkur fyrst og fremst upp úr umferðaróhöppum þar sem fiðurfé kemur við sögu, samfélagsmiðlanotkun forsetans eða klæðaburði á Alþingi. Stundum þarf að víkka sjónarhornið.
Vandinn er bara að heimurinn er svo helvíti stór. Í tvö ár hefur geisað blóðug borgarastyrjöld í Súdan. Milljónir manna eru á flótta, uppundir hálf milljón hefur verið drepin. Ég veit ekkert um borgarastyrjöldina í Súdan og fyllist skömm þegar ég hugsa um það.
2012 skrifaði ég persónu í barnabók sem var með fjórðu borgarastyrjöldina í Chad á heilanum. Það var svipuð pæling - skrifuð mitt á milli þess að vera grín og alvara. Auðvitað var fjórða borgarastyrjöldin í Chad botnlaus skelfing, og ég fyrirvarð mig fyrir að vita ekkert um hana, en hún var nógu fjarlæg til þess að það var hjákátlegt að taka upp málstaðinn.
Það er erfiðara að þykjast ekkert vita um ástandið í Gaza en í Súdan eða Chad. Að láta sem maður sjái ekki tölurnar hækka dag frá degi - tölur um fólk á flótta, tölur um slasaða, tölur um fallna, tölur um dáin börn, dáin börn, dáin börn. Það er svo óbærilegt, millifærslur á styrktarreikninga svo máttleysislegar, en samt er enn verra að sleppa þeim.
Og svo kemur til skömm - alltaf skömm - þegar maður stendur sig að því að lesa erlendar fréttir og smella ekki á fyrirsagnir um stríðsátök, heldur fyrirsagnir frá Bandaríkjunum og fyllast hryllingi yfir þeim.
Má það?
Er ekki pínu sjoppulegt, að velta sér upp úr því, frekar en öllum öðrum hörmungunum?
Þegar skömmin hellist yfir hugsa ég um gæsina í framrúðunni. Kannski er ég ekki eðlis-ill, af því að ég drekk í mig skelfingarfrásagnir úr pólitíkinni að vestan, heldur bara kona sem er alin upp á miklu áhrifasvæði Bandaríkjanna? Og það er eðlilegt að tengja frekar við eitthvað sem stendur okkur nær?
Við erum alin upp við hugmyndina um Bandaríkin sem normið. Þau eru siðmenningin. Við lesum bækur, hlustum á tónlist, horfum á kvikmyndir frá Bandaríkjunum. Þótt við vitum líka að margt í bandarísku samfélagi sé byggt á allt öðrum forsendum en við þekkjum héðan er þetta samt, óumdeilanlega, kunnuglegt.
Og Bandaríkin eru búin að fá einhvers konar fasisma í gegnum framrúðuna og ég get ekki annað en fylgst opinmynnt með.
Við ætlum að ná Grænlandi. Og sennilega Kanada! Þeir ríkustu gera úr sumardvalarparadís úr rústum Gaza-strandarinnar og moka inn seðlum. Þessir háskólar munu annað hvort hlýða eða verða neyddir í gjaldþrot. Þetta fólk sem er með skrýtin nöfn getur bara sjálfu sér um kennt ef það er gripið af götunum og sent í fangabúðir í fjarlægum heimshluta. Við þurfum að útrýma einhverfum og Donald Trump gæti vel hugsað sér að verða páfi.
Þetta er allt saman fjarstæðukennt og fáránlegt, nóg til þess að það er varla hægt að ræða það. Svo fjarstæðukennt að það á ekki að þurfa að ræða það - en samt er það að gerast og erfitt að ná utan um það í umræðunni.
Kannski stafar samviskubitið mitt af kunnugleikanum. Það að fylgjast með þessu er eins og að horfa á dystópískan sjónvarpsþátt á Netflix. Sería tvö eða þrjú - við þekkjum persónurnar, það þarf ekkert að setja sig inn í þetta, það er þannig séð lítið álag að fylgjast með því hvernig er verið að þurrka út réttindi kvenna, réttindi hinsegin fólks, réttindi einstaklings gagnvart stórfyrirtækjum, réttindi borgaranna gagnvart ríkinu.
Hvenær hefur frétt raunverulega þýðingu og hvenær grípur hún augað bara af því að hún er úr nærumhverfinu?
Bandaríkin eru stór og þau eru máttug. Þegar samfélagssáttmálinn þar rofnar er það óþægilega nálægt. Ef hann getur rofnað þar getur hann rofnað hér. Ef stjórnvöld þar snúast gegn almennum borgurum getur það gerst víðar.
Er það sjálfhverft forréttindasjónarhorn að hafa meiri áhyggjur af því en af samfélögum þar sem þessi sáttmáli hefur annað hvort aldrei verið í gildi eða er löngu rofinn?
Sumpart.
Ekki ætla ég að halda því fram að Bandaríkin séu eða hafi verið fyrirmyndarsamfélag. En ef við trúum því að lýðræði, frjálsir fjölmiðlar, listir og frelsi séu grunnstoðir mannréttinda er tilefni til þess að hafa áhyggjur. Ef við trúm því að þetta séu tæki sem alþjóðasamfélagið hefum til þess að vinna gegn harðstjórum og kúgun er tilefni til þess að hafa áhyggjur. Þegar alþjóðlegu samstarfi er ógnað er það slæmt fyrir heimsbyggðina alla - ekki síst átakasvæðin.
Ég mætti fylgjast betur með víglínunni í Úkraínu. Þjáningar fólksins í Yemen mættu vera mér ofar í huga. En ég held að ég ætli samt að hætta að áfellast sjálfa mig fyrir að lesa fréttirnar frá Bandaríkjunum.
Það er nefnilega ekkert gamanmál að fá gæs í gegnum framrúðuna. Hún byrgir ökumanni sýn og stefnir öðrum vegfarendum í voða þegar farartækið æðir stjórnlaust áfram.