Skólabókavörður í Kópavogi, Einar Eysteinsson, stakk niður penna í vikunni og vakti athygli á þeirri glötuðu staðreynd að á íslensku hefur engin bók komið út sem er ætluð unglingum allt þetta ár, nú þegar áttundi mánuður þess er að klárast. Kollegar Einars úr stærri málsamfélögum hafa stillt út nýjum og spennandi ungmennabókum fyrir skólabyrjun, en við hér á Íslandi erum ekki svo lánsöm.
Við sem tengjumst faginu höfum verið að japla á pistli Einars og fara yfir stöðuna. Að minnsta kosti er alveg ljóst að sala unglingabóka er þannig að enginn verður ríkur á henni, hvorki höfundar né útgefendur - og algjörlega vonlaust mál að ætla að gefa út ungmennabók utan jólabókaflóðsins. Raunar óttast ég að staðan sé svo svört að bækurnar standi ekki alltaf undir sér þrátt fyrir styrki, en útgefendur geta gefið út nokkrar á ári með því að nota hagnað af öðrum bókum til þess að halda sér á floti.
Það verður ekki nógsamlega oft minnt á það að samtíminn breytist hraðar núna en hann gerði fyrir nokkrum áratugum. Þegar ég var lítil og las bækurnar sem foreldrar mínir áttu í bernsku skynjaði ég að þær lýstu fortíð - en ekki mjög fjarlægri fortíð. Staðan er önnur núna, samtíminn nær yfir svo miklu styttri tíma og þar með eru samtímabókmenntir smærra safn. Við þurfum stöðugt nýjar bækur fyrir yngri lesendur. Við getum ekki bara bent þeim á gamlar bækur og sagt þeim að þær séu fullgóðar fyrir þau. Það er örugg leið til þess að fækka lesendum.
En, sem sagt - stóra málið er þetta: Ungmennabækur seljast almennt ekki mikið - hvorki frumsamdar né þýddar. Við sjáum þær varla nokkru sinni á metsölulistum, því þær geta ekki keppt við barna- eða fullorðinsbækur. Unglingarnir kaupa þær ekki sjálfir og þær eru lítið keyptar til gjafa. Þetta býr til vítahring, því lítil sala fækkar útgefnum unglingabókum og minna framboð dregur úr eftirspurn. Góð leið til þess að vinna gegn þessu er að kaupa bækur.
Það er hægt að kaupa ungmennabók og gefa hana svo á skólasafnið eftir 1-2 ár. Það má láta hana ganga til ættingja. Það má (í alvöru, það má!) setja hana í pappírsgám að notkun lokinni. En ef við viljum að það séu gefnar út ungmennabækur verðum við að kaupa þær. Þótt unglingarnir hafi ekki sett þær á óskalistann. Þótt unglingarnir hafi lítið lesið undanfarið. Höfum þær aðgengilegar heima. Lesum þær sjálf. Tölum um þær.
Og raunar held ég að þessi byltingarkennda tillaga mín megi ganga lengra en sem nemur unglingabókunum. Við sem lítum á okkur sem bókmenntaáhugafólk þurfum að vera duglegri að láta hugsjónir okkar stýra neysluhegðun. Jafnvel bókelskasta fólk virðist ekki alltaf hafa þær að leiðarljósi, svo ég boða ykkur: Kaupum bækur! Kaupum þær jafnframt því sem við notum bókasöfnin og skiptumst á bókum við vini okkar. En skellum okkur á nýja bók, af því bara. Kaupum sérviskulegar fræðibækur, þýddar fagurbókmenntir, sjoppulega afþreyingu og fallegar myndabækur - því að öðrum kosti koma þær ekki út. Styðjum við bókaverslanir, bókaútgáfur og bókmenntalífið. Mörkum okkur stefnu um það hvernig samfélagi við viljum búa í með hverri ákvörðun.
Ertu að fara í matarboð? Komdu með nýja ljóðabók handa gestgjafanum frekar en vínflösku. Liggur leiðin að sjúkrabeði? Taktu með þér ljúflestrarbók handa sjúklingnum frekar en blómvönd. Á litla frænka afmæli? Kaupum bækur handa henni frekar en kubbakassa. Þarftu að velja jólagjöf handa starfsfólkinu á vinnustaðnum þínum? Þú sendir þetta góða fólk ekki bókarlaust í rúmið á jólanótt!
Íslenskur bókamarkaður er agnarsmár og þarf margvíslegan stuðning frá hinu opinbera svo hann megi þrífast. En hann er engu að síður markaðslegt lífríki - og við erum öll markaðurinn.


