Það gleður mig að sýna ykkur nýju bókina okkar Huldu Sigrúnar - Morð og messufall er á leið í búðir einmitt núna!
Morð og messufall, segirðu? Sérstakur titill á barnabók.
Ó nei, hér yfirgefum við Hulda öruggar lendur barnæskunnar og fylgjumst með nýútskrifaða guðfræðingnum Sif Hólmkelsdóttur lenda í allskonar klandri þegar hún reynir að tryggja sér stöðu æskulýðsprests í úthverfasókn í Reykjavík.
Kápan hennar Emilíu Ragnarsdóttur er dásamleg og ég er spennt að sjá bókina rata til lesenda sinna.
Eins og aðrar skáldsögur okkar Huldu er Morð og messufall sprottin upp úr leik og gleði. Við erum alltaf að reyna að koma hvorri annarri til að brosa þegar við skrifum saman og þessi glæpasaga er engin undantekning. Hún er innblásin af léttum glæpasögum eins og Jónína Leósdóttir og Richard Osman skrifa og við lögðum mikla natni við að skapa persónur sem okkur þóttu skemmtilegar.
Eins og stundum áður var aðdragandi þessarar bókar mjög langur! Árið 2013 áttum við Hulda samtals fjögur börn á leikskólaaldri og ákváðum að lyfta okkur upp með því að fara á kvöldnámskeið í glæpasagnaskrifum sem Iceland Noir hátíðin bauð upp á á Borgarbókasafninu. Írski glæpasagnahöfundurinn William Ryan dró upp nokkrar meginreglur um glæpasagnaskrif, dreifði eyðublöðum sem mátti nota til að búa til grind að söguþræði og stýrði hópnum í allskonar æfingar.
Eftir námskeiðið vorum við Hulda uppnumdar og fannst að það væri frábær hugmynd að skrifa glæpasögu! Við byrjuðum, stoppuðum, byrjuðum aftur, kláruðum, vorum ekki ánægðar, byrjuðum einu sinni enn þannig að aðeins örfáar persónur héldu sér á milli útgáfa, endurskrifuðum, gáfumst upp, skrifuðum aðrar bækur, reyndum aftur og aftur.
Og loksins, með ómetanlegri hjálp frá okkar snjöllu ritstýru, er Morð og messufall tilbúin.
Ég skal alveg gangast við því að ég er pínu feimin við að gefa út glæpasögu. Ég held að enginn markaðssérfræðingur væri mjög ánægður með það hvað ég skrifa ólíkar bókmenntagreinar! En ég hef komist að því að ég les sjálf alls konar bókmenntir í ólíkum tilgangi. Og oft er mjög indælt að liggja í sófanum með skemmtilegan krimma! Þar af leiðandi vil ég bara standa með því að rithöfundar geti verið allskonar.
Ég vona að Morð og messufall rati til sinna lesenda og að hún gleðji einhver ykkar í sumar!
Annars er hægt að kaupa bókina víða, meðal annars hér:
Og ef þið notið Goodreads, þá er Morð og messufall þar á skrá.
Það er útgáfuboð kl. 16:30 í Pennanum í Kringlunni á eftir, þar sem bókin verður á tilboði og hægt að heilsa upp á okkur Huldu! Það myndi gleðja okkur að sjá ykkur.