Partý á eftir!
Skýrsla úr flóðinu
Mig langar að bjóða þér í ofurlítinn gleðskap á eftir. Nánar tiltekið klukkan fimm, í bókabúð Forlagsins á Fiskislóð.
En Arndís? Varstu ekki búin að halda útgáfuboð?
Jú - eða ég reyndi! En minn agnarlitli heimshluti fylltist óvart af snjó þá vikuna og það varð eiginlega með öllu ófært í boðið sem átti að vera í lok október. Meira að segja mamma og pabbi sátu föst í umferð heilt síðdegi og komust ekki út úr póstnúmerinu, þrátt fyrir góðan vilja. Og ég hélt að mér þætti það allt í lagi, en svo fann ég að ég var svolítið sorrý yfir því hvernig þetta fór, svo nú er ég búin að kaupa karamellupopp og draga fram bókamerkin og orðin spennt að hitta fólk til að skála fyrir jólabókaflóðinu!
Þetta hefur verið mér gott flóð.
Líka erfitt flóð.
Þau eru alltaf erfið, held ég - það er auðvitað pínulítið galið að hafa mesta álag ársins einmitt á þessum dimmasta tíma.
En manían er samt skemmtileg - bæði sem lesandi og sem höfundur. Það er gaman að keppast við að lesa nýjar bækur, það er gaman að spá í spilin, fjargviðrast yfir skorti á umfjöllun, bíða spennt eftir nýjustu metsölulistum. Og alveg sérstaklega er gaman fyrir okkur höfunda að hitta lesendur.
Sólgos er fyrsta unglingabókin mín. Ég hef ekkert mikið farið í skólaheimsóknir á unglingastig og ég var skítstressuð fyrir þeim í ár - þrátt fyrir að eiga tvo unglinga sjálf.
Ég skal alveg játa það að stundum hefur stressið reynst á rökum reist. Enginn getur tjáð djúpa fyrirlitningu jafnafdráttarlaust og verulega svalur unglingur. En miklu oftar hafa hóparnir komið mér ánægjulega á óvart. Unglingar eru forvitnir og unglingar vilja heyra sögur. Unglingar lesa.
Ég las líka á hjúkrunarheimili í fyrsta sinn - það var mjög skemmtilegt! Ég lék allar raddirnar og hef hvergi fengið jafnmikið hrós fyrir upplestur eins og þar. Ég sagði þeim sem er, að Gunnar Helgason hefði kennt mér allt sem ég kann, og þau gömlu kinkuðu kolli - það hlaut að vera!
Svo það er hasar. Ég hef tekið þátt í bókmenntadagskrám á bókasöfnum, ég ætla að bjóða áritanir í verslunarmiðstöðvum fyrir jólin og ég er að lesa Sólgos inn á Hljóðbókasafninu þessa dagana. Sólgos fékk tilnefningu til Íslensku bókmenntaverðlaunanna og svo líka til Fjöruverðlaunanna og bókin hefur fengið marga og lofsamlega dóma og selst vel.

Svo þetta hefur sannarlega verið mér gott - og annasamt - flóð.
En jólabókaflóðið er samt auðvitað klikk.
Ég veit að það eru bækur sem fá ekki þá athygli sem þær verðskulda. Bækur sem ná ekki að rata til sinna, því þær sökkva í öllum atganginum. Að auki er mjög erfitt fyrir nokkurt verk að lifa fram yfir áramótin, svo líkurnar á því að þær fljóti upp á yfirborðið í janúar eru því miður ekkert ofsalega miklar.
Og það er glatað!
Ég á samt enga lausn á þessu. Það sem við óttumst öll er að ef jólabókaflóðið væri ekki til staðar, þá myndum við missa þennan bókmenntaofsa sem stendur í hálfan þriðja mánuð og sama lágdeyðan og er nú tíu og hálfan mánuð á ári myndi ríkja árið um kring.
Ég hef reynt að bregðast við þessum blendnu tilfinningum með því að lesa eins mikið og ég get - það er mín jarðtenging. Ég drekk í mig skáldskapinn - kaupi bækur, tek þær á bókasafninu og fæ þær lánaðar hjá vinum. Hafið þið tekið eftir því að maður sér aldrei eftir tíma sem er varið í lestur? Ekki einu sinni þegar manni mislíkar bókin. Það er ánægjulegt að rífast við texta, hneykslast á honum, greina það af hverju hann er svona ómögulegur. Þótt það jafnist auðvitað ekki á það þegar maður hrífst með - það er svo óskapleg nautn að hrífast með og lesa rauðeygur fram á nótt. Í öllu falli er það iðulega góð ákvörðun að stofna til kynna við nýja bók.
Ég er þreytt í öllu spriklinu - ég neita því ekki. En mikið ógurlega er ég samt þakklát - þakklát fyrir að fá að skrifa, fá að taka þátt í þessu ævintýri og fyrir að eiga lesendur. Ég veit vel að kannski mun ég aldrei upplifa annað eins flóð eins og það í ár, svo ég reyni að staldra við og njóta.
Þess vegna væri væri gaman að sjá þig á þessari uppskeruhátíð jólabókaflóðsins sem ég hef boðið til á eftir. Ég get áritað fyrir þig Sólgos eða Morð og messufall. Eða bara gefið þér karamellupopp og þú færð smá jól í augun í þessari stærstu bókaverslun landsins, þar sem gjörvallt jólabókaflóðið liggur frammi.



